Þorskur

Latína: Gadus morhua
Enska: Cod
Danska: Torsk
Færeyska: Torskur
Norska: Torsk
Þýska: Kabeljau, Dorsch
Franska: Morue, cabillaud
Spænska: Bacalao


Lifnaðarhættir

Þorskur er mikilvægasti nytjafiskurinn á Íslandsmiðum og sú fisktegund sem hefur skilað mestum verðmætum í þjóðarbúið í gegnum tíðina. Þorskurinn telst til botnfiska, og lifir hann á ýmsu dýpi, frá nokkrum metrum og allt niður á 5-600 metra dýpi. Í N-Atlantshafi eru ýmsir þorskstofnar, sem greinast í sundur eftir útbreiðslu, vexti og kynþroska. Helstu stofnarnir eru Barentshafsstofninn, íslenski stofninn, og stofnarnir við Grænland. Þá eru einnig stofnar við Færeyjar, í Norðursjó, Eystrasalti og víðar.

Þorskur, sem vex upp við S og V-strönd Íslands, er að miklu leyti staðbundinn alla ævi og í Faxaflóa er bæði ókynþroska þorskur staðbundinn allt árið en einnig kemur þangað kynþroska þorskur sem hrygnir á vorin. Þorskur sem elst upp úti fyrir Norðurlandi leitar að mestu leyti í heitari sjó til hrygningar þegar hann verður kynþroska, en þó er eitthvað um að þorskur hrygni úti fyrir Norðurlandi. Þorskurinn er mjög gráðugur fiskur og étur flest það sem að kjafti kemur, en langmikilvægasta fæða fullorðins þorsks er loðna, en einnig étur þorskurinn mikið af rækju og öðru fiskmeti.

Hrygning hefst í mars við suðurströndina og er að mestu lokið í byrjun maí og sækir hann þá í að vera þar sem hitastig er 5-7°C og dýpi um 50-150 m. Hrygningin fer fram nálægt botni eða miðsævis. Eftir hrygningu dreifir þorskurinn sér í fæðuleit.
Vöxtur þorsksins er mjög mismunandi og fer hann mikið eftir hitastigi sjávar, fæðumagni ofl. Þorskurinn nær kynþroska 4-6 ára í heitari sjó úti fyrir fyrir Suðurlandi en 6-9 ára í kaldari sjó fyrir norðan land. Þorskurinn hrygnir árlega eftir að hann byrjar að hrygna.

Þorskurinn á sér marga óvini í náttúrinni, auk mannsins. Hann er fæða ýmissa stærri fiska og fugla og þá er hann einnig grimmt étinn af hvölum, selum og hákörlum. Sníkjudýr sækja í þorskinn og er þar þekktast selormur (Pseudoterranova decipiens), en hann lifir sem kynþroska fullorðið dýr í sel, en sem lirfa í þorski.

(Heimild: Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson, Fjölvi 1992).

Næringargildi