Sýnataka

Íslenskar sjávarafurðir eru stöðugt undir eftirliti, allt frá veiðum og að borði neytendans. Það eru gerðar ákveðnar kröfur til hráefnis og afurðar. Ýmsum aðferðum er beitt til þess að meta vöru og jafnframt er verið að meta marga ólíka þætti í öllu ferlinu. Hráfnið fer í gegnum ferskleikamat fyrir vinnslu, og í vinnslu er verið að meta þætti eins og los, áferð, lit, bragð, lykt, fjölda sníkjudýra og beina, íshúð, vigtun, merkingar og margt fleira. Allar afurðir hafa sín viðmið, þar sem tilgreind eru þau skilyrði sem varan þarf að uppfylla. Við framleiðslu er fylgst með öllum þessum skilyrðum og reynt er að sjá til þess að varan uppfylli þessi fyrirfram ákveðnu viðmið.

En kaupendur verða að byggja sína skoðun á því að taka ákveðinn fjölda sýna af sendingu og reyna síðan að meta gæði afurðarinnar á grundvelli sýnisins. Kaupendur nota margvíslegar viðmiðanir þegar sýnastærð er ákveðin og eru það oft heimasmíðaðar reglur. Til þess að hafa ákveðin viðmið í viðskiptum með matvæli þá hefur Codex Alimentarius útbúið sýnatökuáætlanir. Margir erlendir kaupendur vísa í þessar reglur og kemur það fyrir að þær séu nefndar í pökkunarreglum eða vörulýsingu afurða, en þessar reglur nefnast FAO/WHO CODEX Alimentarius Sampling Plans for Prepackaged Foods (1969) (AQL 6,5).

Hér fyrir neðan er stutt lýsing á sýnatöku samkvæmt Codex, en nánari upplýsingar er að finna á: https://www.fao.org/fao-who-codexalimentarius/en/

Sýnataka (Codex alimentarius)
Með sýnatöku er átt við að taka sýni eða ákveðinn fjölda eininga frá ákveðinni framleiðslu-lotu til skoðunnar. Niðurstaða sýnatökunnar gefur til kynna hvort hægt sé að samþykkja lotuna eða hafna henni, einnig er hægt að nota niðurstöður til að semja um hvað eigi að gera við vöruna, t.d. lækka verð eða selja á aðra markaði. Algengast er að nota sýnatökuaðferðir sem byggja bæði á sýnastærð og samþykktarmörkum; slíkar aðferðir eru kallaðar á ensku “acceptance sampling”. Þetta þýðir að þegar lota, sem er með ákveðnum fjölda eininga, er skoðuð þá er tekinn fyrirfram ákveðinn fjöldi sýna og samkvæmt sýnatökuáætlun þá má þessi tiltekni fjöldi sýna hafa ákveðinn fjölda gallaðra eininga (samþykktarmörk), ef fjöldi gallaðra eininga fer yfir samþykktarmörkin þá er lotunni hafnað.

Það eru margar mismunandi sýnatökuáætlanir notaðar í dag og er það mjög háð því hvers konar vöru á að skoða eða meta hverju sinni. Sú aðferð sem fyrir valinu verður er háð þörfum notandans.

Við þróun sýnatökuáætlana hefur verið tekið tillit til vörunnar og þess sem skoða á, það getur þurft að opna pakkningar og þar með eyðileggja þær. Slík skoðun er oft nefnd á ensku “destructive sampling”. Það þarf líka að taka tillit til þess tíma sem fer í skoðun. Mikil vinna og tapaðar vörur kosta peninga, og þegar verið er að þróa sýnatökuáætlun til að meta gæði framleiðsluvara, þá verður að taka tillit til kostnaðar. Stærð sýnis verður að vera hlutfallslega lítil til þess að áætlunin sé notendavæn.

Þessi sýnatökuáætlun Codex er fyrst og fremst ætluð til að leggja mat á gæðaþætti sem hægt er að meta með skynmati eða mælingum svo sem lykt, bragð, áferð, gallar, stærð og útlit. En ef um er að ræða þætti sem geta valdið heilsutjóni eða skaða, þá munu ábyrg stjórnvöld leggja til að slíkri vöru sé hafnað þó varan gæti hugsanlega staðist mat samkvæmt þessari sýnatökuáætlun. Þættir sem gætu valdið heilsutjóni eða skaða geta verið t.d. leifar af skordýraeitri, mengunarefni, bólgnar dósir, aðskotaefni eins og steinar, gler eða stór skordýr. Það verður að nota önnur og strangari viðmið þegar þessir þættir eru skoðaðir eða metnir.

Áhætta
Markmið allra sýnatökuáætlana er að samþykkja lotur sem eru í lagi og hafna þeim sem ekki eru í lagi. Þar sem niðurstaðan er byggð á líkum þá er alltaf einhver áhætta á að röng ákvörðun sé tekin. Þessa áhættu verða kaupendur og seljendur að sætta sig við sem ákveðinn hluta sýnatökunnar. Ein leið til þess að minnka áhættu er að stækka sýnið. Með öðrum orðum þeim mun stærra sem sýnið er þeim mun minni líkur eru á því að gölluð lota sé samþykkt eða lotu sem er í lagi hafnað. Þegar eftirlit með framleiðslu er gott og varan uppfyllir öll skilyrði í framleiðslu þá skiptir ekki miklu máli hver sýnatökuáætlunin er, því slíkt raskar ekki áhættu kaupanda og seljanda. Með öðrum orðum rétt framleidd vara er “góð” vara og ætti því að standast nánast alltaf skoðun. Áhrif sýnatökuáætlunar á að samþykkja “góða” eða “slæma” vöru má sjá í svokölluðu OC-línuriti. T.d. ef lota er framleidd með færri en 6,5% göllum þá ætti slík vara að sleppa í gegnum skoðun í 95% tilvika samkvæmt sýnatökuáætlun sem nefnd hefur verið AQL 6,5.

AQL (samþykktarmörk)
Eitt af því sem taka verður með í reikninginn þegar verið er að hanna tölfræðilega sýnatökuáætlun er val á viðeigandi samþykktarmörkum AQL eða “Acceptable Quality Level”. Þetta er skilgreint sem hámarksfjöldi gallaðra eininga í lotu sem mun verða samþykkt í flestum tilvikum ( um það bil í 95% tilvika). Lotur sem hafa fleiri gallaðar einingar munu verða samþykktar sjaldnar, hlutfall höfnunar og samþykktar vex eftir því sem sýnfjöldinn vex um leið og gallatíðni í lotunni eykst.

Við þróun sýnatökuáætlana þá var AQL fyrir 6,5 valið þegar lagt er mat á gæði afurða og hvort tiltekin framleiðslulota uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar eru til vörunnar. Þetta gildi (6,5) var valið á grundvelli áralangrar reynslu og getu iðnaðarins til þess að framleiða niðursoðnar og aðrar fullunnar afurðir. Varðandi ýmsa gæðaþætti eins og Brix gráður og nettó þyngd þá gæti þurft að velja önnur AQL gildi. Hægt er að hanna sýnatökuáætlanir með ýmsum gildum fyrir AQL, stöngustu áætlanirnar hafa lágt AQL t.d. 0,10 meðan slakari áætlanir hafa hátt gildi eins og AQL 25,0.

Stig sýnatökuáætlana (inspection level)
Þessi sýnatökuáætlun bíður upp á tvö stig I og II, þessi tvö stig bjóða upp á ákveðið sjálfdæmi í vali með tilliti til vörutegundar og aðstæðna. Venjulega er stig I fullnægjandi en ef um deilumál er að ræða eða framleiðsluvandamál, þá er mælt með að nota stig II. Það er hægt að réttlæta færri sýni þegar t.d. er verið að skoða bönnuð aukaefni, eða merkingar.

OC línurit
Áhættu kaupenda og seljenda með tilliti til sýnastærðar og gæða lotu er lýst með línuriti sem kallað er “Operating Charcteristic Curves” (OC-línurit). Myndin sýnir línurit fyrir sýntökuáætlanir “Codex Alimentarius Sampling Plans for Prepackaged Foods” AQL 6,5. Þegar skoðun felur í sér eyðileggingu vörunnar þá er sýnastærð þar sem fleiri en 84 sýnir eru tekin ekki hagkvæm, þar sem aukin sýnataka mun ekki veita betri upplýsingar um ástand lotunnar.
Við skoðun á línuritinu má draga nokkrar ályktanir:

  • Allar línurnar hafa svipaðan halla, nema línan fyrir sýnafjöldan 6 er mun flatari en hinar.
  • Allar línurnar skerast í punkti sem svarar til 6,5% galla og um það bil 95% líkum á samþykki.
  • Eftir því sem sýnastærðin vex þá verða línurnar brattari og meira afgerandi, það er lotur sem hafa meiri en 6,5% galla verður oftar hafnað.
  • Áreiðanleiki aukinnar sýnatöku er ekki í réttu hlutfalli við stærri sýni. T.d. fyrir lotu sem hefur 20% gallaðar einingar, þá munu 6 sýni (lína E) samþykkja slíka lotu í 65% tilvika, meðan 29 sýni (lína K) mun samþykkja sömu lotu í 28% tilvika. Í þessu dæmi er hlutfallið á milli líka á samþykki aðeins rúmlega 2 á móti 1, meðan sýnafjöldi hefur vaxið nærri því fimmfalt.

Til þess að útskýra betur notagildi OC línurita (AQL 6,5) þá má ímynda sér lotu með 10% gallaðra eininga. Lota með 6,5% gallaðra eininga mun verða samþykkt í um það bil 95% tilvika og tíðni samþykkta eykst eftir því sem göllum fækkar. Samt sem áður þá er lota sem er með 10% gölluðum einingum alveg á mörkunum og verður ef til vill ekki samþykkt. Við skoðun á línuritinu þá sést að þegar tekin eru 6 sýni (lína E) þá mun þessi lota verða samþykkt í um 88% tilvika en ef tekin eru 84 sýni (lína M) verður lotan samþykkt í 65% tilvika.
Ef lota er með 30% gallaðra eininga og tekin eru 6 sýni (lína E) þá mun slíkt sýni aðeins vera samþykkt í 42% tilvika og ef tekin eru 21 sýni (lína J) þá er lotan samþykkt í aðeins 8% tilvika og ef tekin eru 84 sýni (lína M) þá mun slíkri lotu alltaf vera hafnað.


“Operating Charcteristic Curves” (OC-línurit).

AQL = 6,5

Bókstafirnir eiga við línurnar á myndinni

n = stærð sýnis; c = samþykktarmörk; r = höfnunarmörk

Dæmi um notkun á sýnatökuáætlunum

Sýnatökustig I (Inspection level I)

Framleiðslulota með 1.200 kössum, þar sem hver kassi hefur að geyma 2,5lb einingar. Ákveðið var að nota sýnatökustig I þar sem ekki er gert ráð fyrir vandamálum í ljósi sögu framleiðslunnar.

 Lotustærð (N) = 1.200 x 12 eða 14.400 einingar
 Innihald einingar = 2,5 lb
 Inspection level = I ( Sjá sýnatökuáætlun 1)
 Stærð sýnis (n) = 13
 Samþykktarmörk (c) = 2

Í ofangreindu dæmi má mest finna 2 gallaðar einingar í 13 eininga sýni til þess að samþykkja lotuna. Ef það finnast aftur á móti 3 gallaðar einingar þá er litið svo á að lotan uppfylli ekki gæðakröfur.

Sýnatökustig II (Inspection level II)

Ef ætla má að varan í ofangreindu dæmi sé tæp eða taka þarf endursýni þá er einingum í sýninu fjölgað og skoðuð 21 eining.

 Lotustærð (N) = 1.200 x 12 eða 14.400 einingar
 Innihald einingar = 2,5 lb
 Inspection level = II ( sjá sýnatökuáætlun 2)
 Stærð sýnis (n) = 21
 Samþykktarmörk (c) = 3

Það er ekki nauðsynlegt að taka nákvæmlega þann sýnafjölda sem tilgreindur er í töflunum, það má taka stærra sýni. Í dæminu hér að ofan mætti t.d. taka 29 eða jafnvel 49 einingar og þá breytast samþykktarmörkin í samræmi við það.


Sýnatökuáætlun 1
(Inspection Level I, AQL = 6,5)

Nettó þyngd er jöfn eða minni en 1 kg (2,2 LB)

Lotu stærð (N)Stærð sýnis (n)Samþykktarmörk (c)
4.800 eða færri einingar61
4.801 – 24.000132
24.001 – 48.000213
48.001 – 84.000294
84.001 – 144.000385
144.001 – 240.000486
fleiri en 240.000 einingar607

Nettó þyngd meiri en 1 kg (2,2 LB), en ekki meiri en 4,5 kg (10 LB)

Lotu stærð (N)Stærð sýnis (n)Samþykktarmörk (c)
2.400 eða færri einingar61
2.401 – 15.000132
15.001 – 24.000213
24.001 – 42.000294
42.001 – 72.000385
72.001 – 120.000486
fleiri en 120.000 einingar607

Nettó þyngd meiri en 4,5 kg (10 LB)

Lotu stærð (N)Stærð sýnis (n)Samþykktarmörk (c)
600 eða færri einingar61
601 – 2.000132
2.001 – 7.200213
7.201 – 15.000294
15.001 – 24.000385
24.001 – 42.000486
fleiri en 42.000 einingar607

Sýnatökuáætlun 2

(Inspection Level II, AQL = 6,5)

Nettó þyngd er jöfn eða minni en 1 kg (2,2 LB)

Lotu stærð (N)Stærð sýnis (n)Samþykktarmörk (c)
4.800 eða færri einingar132
4.801 – 24.000213
24.001 – 48.000294
48.001 – 84.000385
84.001 – 144.000486
144.001 – 240.000607
fleiri en 240.000 einingar728

Nettó þyngd meiri en 1 kg (2,2 LB), en ekki meiri en 4,5 kg (10 LB)

Lotu stærð (N)Stærð sýnis (n)Samþykktarmörk (c)
2.400 eða færri einingar132
2.401 – 15.000213
15.001 – 24.000294
24.001 – 42.000385
42.001 – 72.000486
72.001 – 120.000607
fleiri en 120.000 einingar728

Nettó þyngd meiri en 4,5 kg (10 LB)

Lotu stærð (N)Stærð sýnis (n)Samþykktarmörk (c)
600 eða færri einingar132
601 – 2.000213
2.001 – 7.200294
7.201 – 15.000385
15.001 – 24.000486
24.001 – 42.000607
fleiri en 42.000 einingar728